Tónlistarkonan Bríet er vinsælasti tónlistarmaður landsins í dag, amk. ef eitthvað er að marka Spotify og útvarpið. Lagið hennar Rólegur kúreki er spilað á öllum útvarpsstöðvum landsins og platan hennar Kveðja, Bríet, sem kom út fyrir mánuði er öll eins og hún leggur sig á topp 15 á íslenska Spotify listanum, og er búin að vera á toppnum síðan hún kom út. Það er hlustað á alla plötuna c.a. 5000 sinnum á dag á Spotify (mín ágiskun). Bríet er gestur Rokklands í dag. Og Elvis Costello var að senda frá sér enn eina plötuna. Hún heitir Hey Clockface og er númer 31 í röðinni. Platan er eins og hálfgert ferðalag, 14 laga plata sem var tekin upp í Helsinki, New York og París. Við heyrum nokkur lög af plötunni í þættinum og svo koma líka við sögu t.d. The Staves, Julia Stone, AC/DC og Aurora.
↧