Í Rokklandi í dag ætla ég að spila slatta af splunkunýrri tónlist úr ýmsum áttum með fólki og hljómsveitum eins og Nick Cave & Bad Seeds, Johnny Marr, Good Morning, Joan As Policewoman, Placebo, Lumineers ofl ? og við rifjum líka upp smá Nirvana, en platan ? meistaraverkið Nevermind varð 30 ára núna á föstudaginn og margir eiga góðar minningar tengdar þessari plötu. Við heyrum nokkrar í seinni hluta þáttarins og lög af plötunni, en fyrri hlutann á hljómsveitin Blondie. Debbie Harry söngkona og andlit hljómsveitarinnar er heiðursgestur á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, sem hefst núna í vikunni. Á meðal kvikmynda hátíðarinnar er myndin, Blondie: Að lifa í Havana um tónleikaferðalag hljómsveitarinnar til Kúbu. Með ferðinni, sem var í boði menningarráðuneytis Kúbu, rættist 40 ára gamall draumur hljómsveitarinnar um að spila á Kúbu. Myndin verður sýnd í Háskólabíó á laugardaginn næsta og eftir sýningu situr Debbie fyrir svörum áhorfenda og Andrea Jónsdóttir vinkona okkar allra ætlar að spjalla við hana. Ég ætlaði líka að spjalla við hana í síma fyrir þennan þátt, það var búið að ganga frá því - en svo bara gekk það ekki upp. That?s life... eins og Sinatra söng, og Það breytir því ekki að fyrri hluti Rokklands í dag er helgaður Debbie Harry og Blondie. Debbie er frábær ? fyrirmynd og frumkvöðull sem lætur ekkert stöðva sig. Hún er fædd 1945 og var að verða þrítug þegar hún sló í gegn með Blondie rétt fyrir 1980.
↧