Ólafur Arnalds var í eina tíð í hljómsveitunum Fighting Shit, Mannamúll og Celestine td. Þar trommaði hann en í dag er hann að geta sér gott orð sem kvikmyndatónskáld og nútíma poppstjarna.
Ólafur er ekki nema 26 ára gamall en búinn að koma ár sinni vel fyrir borð í tónlistarheiminum. Tónlistin hans hefur verið notuð í stórar Hollywood kvikmyndir og vinsæla sjónvarpsþætti, hann er með útgáfusamning við Universal og hann þykir fremstur meðal jafningja á Íslandi í nýmiðlun tónlistar. Ólafur sem sendi nýverið frá sér sína aðgengilegustu plötu, For now i am winter, er aðalagestur Rokklands á morgun (10.03.2013). Hann segir í þættinum frá nýju plötunni og fortíðinni í metal-rokkinu.
Atoms For Peace heitir hún "súpergúppan" sem Thom Yorke forirngi Radiohead leiðir. Hann setti hjómsveitina saman í þeim tilgangi að fylgja eftir sólóplötunni sinni, The Eraser fyrir nokkrum árum. Í lok tónleikaferðarinnar fór hann með hljómsveitinni í hljóðver í Los Angeles og tók upp í þrjá daga. Síðan þá hafa þeir verið að klippa og líma hann og upptökustjórinn Nigel Goodrich sem líka er í hljómsveitinni og fyrir skemmstu kom út platan AMOK. Um plötuna og hljómsveitina verður fjallað í Rokklandi, en í bandinu eru t.d. þeir Flea bassaleikari úr Red Hot Chili Peppers og trommarinn Joey Waronker (R.E.M. og Beck).
Þar að auki koma við sögu í þættinum listamenn og hljómsveitir eins og The Byrds, The Coral, Ride, Woods, Velvet Crush, Nada Surf, Son Volt og Mad Season.
↧