Hljómsveitin Sólstafir sendi í vikunni sem leið frá sér sína metnaðarfyllstu og hugsanlega bestu plötu, Óttu.
Ótta er fimmta plata Sólstafa sem hafa verið starfandi í næstum 20 ár. Sólstafir er þungarokk-hljómsveit í grunninn en tónlistin hefur breyst í gegnum árin og Sólstafir minna í dag ekki minna á Sigur Rós en Metallica, er kannski þarna mitt á milli einhverstaðar. Tónlistin er þrungin tilfinningu og dramatík. Lögin eru löng og umfjöllunarefnið er gamla góða; Sex, drugs & Rock´n roll segja þeir Addi (Aðalbjörn) söngvari og gítarleikari og trommarinn Gummi (Guðmundur Óli). Þeir tala opinskátt um hljómsveitina, listina, lífið, brennivín, Bakkus og áhrifavaldana í Rokklandi vikunnar.
Það er nóg framundan hjá Sólstöfum, sex vikna tónleikaferð um Evrópu og svo eflaust eitthvað meira í framhaldi af því.
Sólstafir spila á Rokkjötnum 2014 næsta föstudagskvöld sem Rás 2 ætlar að senda beint út frá, þungarokk-veisla í Vodafone höllinni, og svo taka Sólstafir þátt í RIFF með því að spila sína eigin tónlist undir sýningu á víkingamynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 1. október.
Lögin á Óttu eru átta, eins og eyktirnar sem voru helstu tímaviðmiðanir í daglegu tali áður fyrr:
lágnætti - miðnætti
ótta
rismál
dagmál
miðdegi - hádegi
nón
miður aftann - miðaftann
náttmál
Sólstafir eru:
Aðalbjörn Tryggvason - Söngur og gítar
Guðmundur Óli Pálmason - Trommur
Svavar Austmann - Bassi
Sæþór Maríus Sæþórsson- Gítar
↧