Þegar Einar Örn Benediktsson sagði í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík árið 1982: „Það skiptir ekki máli hvað þú getur, heldur hvað þú gerir“ - hafði það áhrif á fjölda ungs fólks og í kjölfarið spruttu upp hljómsveitir um allt land. Þann 8. mars síðastliðinn voru 35 ár liðin frá því að hljómsveitin Purrkur Pillnikk var stofnuð í Reykjavík af fjórum ungum Reykvíkingum. Það var æft einu sinni, 8-9 lög urðu til á æfingunni og svo var spilað á tónleikum í M.H. daginn eftir. 18 viðburðarríkir mánuðir Purrkur Pillnikk er lykilhljómsveit í íslensku tónlistarsögunni og tveir af liðsmönnum sveitarinnar eru gestir Rokklands í dag, þeir Einar Örn og Bragi bassaleikari. Við ætlum að hlusta saman á alla fyrstu plötuna, litlu 10 laga plötuna Tilf sem kom út um vorið 1981. Þá voru strákarnir Einar Örn, Bragi, Friðrik og Ásgeir flestir 17 ára gamlir. Sveitin var starfandi í eitt og hálft ár og gaf út á þeim tíma einar 5 plötur ? fór í tónleikaferð um Bretland með The Fall og fleira. Brautryðjandans George Martin minnst George Martin upptökustjóri Bítlanna lést í vikunni á heimili sínu, 90 ára að aldri. Hann hafði gríðarleg áhrif á tónlistarlíf alls heimsins. Hann tók sénsinn á Bítlunum þegar allir aðrir sögðu nei. Hann heyrði eitthvað í þeim og var svo með þeim frá byrjun og til enda. Tók upp með þeim fyrsta lagið ? Love me do og síðustu plötuna; Abbey Road. Hann var í Frægðarhöll rokksins, Elísabet drottning aðlaði hann og hann hlaut um ævina 6 Grammy-verðlaun. Hann er fyrsti upptökustjórinn sem heimurinn vissi hvað hét. Hann ruddi brautina fyrir þá sem á eftir honum komu, var fyrirmynd allt til enda og hans verður minnst í Rokklandi dagsins.
↧