Í Rokklandi dagsins er allt í bland - útlagakántrí hinna eldri og látnu í útlöndum, og svo Músíktilraunir unga fólksins á Íslandi. Úrslit Músíktilrauna fóru fram í gær í Norðurljósum í Hörpu ? voru í beinni útsendingu á Rás 2 og líka á RUV 2. Sigursveitin heitir Hórmónar og kemur úr Garðabænum. Nýlega stofnuð hljómsveit skipuð þremur vinkonum og tveimur stráka-vinum þeirra. Í öðru sæti var 22 ára gamall Helgi Jónsson sem leiðir einskonar íslenska 2016 útgáfu af Pink Floyd og í þriðja sæti 19 ára gamalt hljómborða-séní sem heitir Magnús Jóhann. Við heyrum í þessum hljómsveitum og fleirum í seinni hluta Rokklands að þessu sinni en í fyrri hlutanum ætla ég að spila kántrí-hetjuna Merle Haggard og minnast hans, en hann féll frá í vikunni sem leið - á afmælisdaginn sinn þegar hann var 79 ára. Merle haggard var merkilegur maður og mörg laga hans hafa verið sungin á íslensku. 20 ára gamall var hann fangi í San Quentin fangelsinu í Kaliforníu þegar Johnny Cash kom þangað fyrst og spilaði árið 1959. Hann losnaði út árið eftir og ákvað að halda sér réttu megin laganna. Hann átti síðar eftir að spila í Hvíta-húsinu fyrir Reagan, og Obama forseti heiðraði hann sérstaklega fyrir nokkrum árum. En þátturinn hefst á því nýjasta fra Bob Dylan, en það er gamalt lag sem Frank Sinatra gaf út árið 1939 og heitir Melancholy mood. Þetta er þáttur númer 1001.
↧