Í þættinum í dag heyrum við nýja músík frá fólki eins og Goldfrapp, Vök, Roger Waters, Father John Misty, U2 og The War on Drugs, en aðal gestur þáttarins og mál málanna er Laura Marling, 27 ára gömul tónlistarkona frá suð-austur Englandi sem er frábær. Laura byrjaði að spila á gítar til að heilla pabba sinn hefur hún sagt í seinni tíð, en 16 ára gömul var hún komin með fimm platna plötusamning upp á vasann. Núna fyrir skemmstu var sjötta platan hennar að koma út, hún sem heitir Semper Femina hefur fengið góða dóma og hefur selst vel. Laura hefur verið tilnefnd þrisvar sinnum til Mercury tónlistarverðlaunna og fjórum sinnum til bresku tónlistarverðlaunanna sem tónlistarkona ársins. Henni hefur oft verið líkt við Joni MItchell og Karen Carpenter, en líka Bob Dylan, Neil Young og James Taylor. Ég ætla að skauta yfir feril hennar í þættinum, spila lög af plötunum hennar og svo heyrum við líka viðtal við Lauru. Í þættinum Konsert á Rás 2 næsta fimmtudagskvöld eru svo á dagskrá nýlegir tónleika með Lauru.
↧