Söngvarinn, gítarleikarinn og tónlistarmaðurinn Chris Cornell úr Soundgarden og Audioslave stytti sér aldur fyrir rúmri viku eins og margir eflaust vita og Rokkland vikunnar er helgaður Chris, lífi hans og verkum. Chris sem er fæddur og alinn upp í rokkborginni Seattle í Bandaríkjunum varð 52 ára gamall. Hann framdi sjálfsmorð eins og það er kallað á hreinni og beinni íslensku á hótelherbergi í Detroit Rock City eftir að hafa spilað tónleika með gömlu hljómsveitinni sinni, Soundgarden, í Fox Theatre fyrr um kvöldið. Hann fór upp á hótelherbergi eftir tónleikana, hringdi í konuna sína, hún hafði orð á því að hann væri eitthvað skrýtinn og hann sagði að það væri hugsanlega vegna þess að hann hefði tekið tveimur kvíða-töflum of mikið. Hann hafði lengi verið að díla við kvíða og þunglyndi og var á lyfjum sem heita Ativan, en ein af aukaverkunum ku vera sjálfsmorðshugsanir. En svo hefur meira komið í ljós varðandi þetta mál síðustu daga og það er talið að hann hafi innbyrt eitthvað meira en þessi kvíðalyf þetta kvöld. Chris byrjaði ungur að nota fíkniefni og var búinn að vera án alls slíks árum saman en það má vera að hann hafi nýlega byrjað að nota eitthvað aftur. Chris Cornell hélt tvisvar tónleika á íslandi. Hann spilaði lágstemmda sóló-tónleika í Eldborg í Hörpu í fyrra, en kom með hljómsveit í Laugardalshöllina fyrir áratug. Í þeirri heimsókn óskaði ég eftir að fá viðtal við hann og Ísleifur Þórhallsson tónleikahaldari bjargaði því og mætti með honum í útvarpshúsið við Efstaleiti. Við heyrum talsvert af því spjalli í þættinum en við ræddum um æskuárin, unglisgsárin, áhrifavalda, upphaf Soundgarden, um Temple of the Dog og Eddie Vedder, um plötur Soundgarden, um Audioslave ofl. Við ætlum við að kynnast þessum merkilega náunga frá Seattle aðeins betur.
↧