Emiliana Torrini er gestur Rokklands. Emiliana tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum eftir að hljómsveitin hennar leystist upp, að gera meira af hlutum sem hún hræddist, vinna með allskyns tónlistarmönnum og fólki og leyfa því að ráða ferðinni í stað þess að reyna sífellt að hafa sjálf stjórn á öllum hlutum. Síðan hefur hún flutt lögin sín með tilrauna-jazzhljómsveit í Berlín, sígaunahljómsveit í Cordoba á Spáni, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Belgískum náungum sem spila á heimasmíðuð hljóðfæri og kalla sig The Colorist Orchestra. The Colorist Orchestra var heilt ár að undirbúa tónleikaprógramm með Emiliönu og svo var spilað á 5 tónleikum. Tónleikarnir voru allir teknir upp og brot af því besta var að koma út á plötunni The Colorist Orchestra & Emiliana Torrinni. Belgarnir völdu lögin fyrir utan tvö sem eru ný á plötunni og þar af er eitt sem Emiliana samdi með The Colorist Orchestra. Emiliana flutti heim til Íslands fyrir nokkrum árum eftir 15 ár í Englandi og á von á sínu öðru barni í maí á næsta ári. Emiliana sem sendi síðast frá sér plötuna Tookah er gestur Rokklands og við hlustum saman á alla nýju plötuna og ræðum allt milli himins og jarðar, en platan fékk fjórar stjörnur af fimm í Guardian núna um helgina.
↧