Gestur þáttarins í dag er sá sami og fyrir viku, Poppstjarnan okkar eina sanna; Páll Óskar Hjálmtýsson, sem sagði okkur fullt af skemmtilegum sögum af sjálfum sér fyrir viku og svo á milli dró ég lagaheiti uppúr hatti og hann sagði okkur sögurnar á bakvið lögin. Og við vorum svo stutt á veg komnir í síðustu viku þegar tíminn var búinn þannig að Palla var beðinn um að koma aftur í dag og segja okkur fleiri sögur af lífi sínu og lögunum sínum. Tilefnið er hálfrar aldar afmæli Palla núna 16. mars, og afmælistónleikar sem áttu að vera núna í vikunni; 12. - 13. og 14. mars í Háskólabíó. En Palli sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann sagði að vegna Covid 19 veirunnar ætluðu hann og Rigg viðburðir sem halda tónleikana, að fresta þeim fram á haust, fram í september eða jafnvel október. Palli sagðist ekki vilja stofna aðdáendum sínum í hættu og þess vegna væri best, í ljósi aðstæðna, að fresta bara tónleikunum.
↧