Iceland Airwaves fór fram um helgina í tuttugasta skipti. Rokkland veit ekki annað en allt hafi gengið eins og það átti að ganga. Það var skipt um áhöfn í brúnni á Airwaves togaranum eftir síðustu hátið, en síðasta hátíð skilaði eigendum tugmilljóna tapi. Hvort nýrri áhöfn (sem er Sena Live) hefur tekist að snúa þessum mínus í plús er ekki vitað á þessari stundu en það er búið að gera eitt og annað til að breyta um kúrs og ný stefna var tekin í ár. Nýja stefnan er kannski meira í þá átt sem farið var fyrstu árin þegar hátíðin var aðeins minni um sig og eingöngu spilað á litlum og stórum tónleikastöðum í miðborginni. Það var spilað í Listasafninu, Iðnó, á Gauknum og Húrra, í Gamla bíó og svo framvegis. Það var enginn salur í Hörpu notaður í ár en svið sett upp í því sem kallað er "Flói". Rokkland sá haft eftir einum af forsprökkum hátíðarinnar um helgina að gestir Airwaves í ár væru c.a. 8.000 með öllum og meirihlutinn útlendingar sem er dálítið merkilegt en ekkert sem ástæða er til að kvarta undan. Rokkland var á Airwaves og Rás 2 var mikið á Airwaves og sendi t.d. út mikið tónleikaprógramm á miðvikudagskvöldið frá Gamla bíó þar sem komu fram Hildur Vala, Moses Hightower, Kiriyama Family, Valdimar og fleiri. Poppland var í beinni úr Petersen svítunni í Gamla bíó á fimmtudag og föstudag og svo er Rokkland í dag tileinkað hátíðinni. Meðal þeirra sem koma við sögu í dag eru Addi í Sólstöfum, Axel Flóvent, Andrea Jónsdóttir, Mark frá London sem er búinn að koma 15 sinnum á Airwaves, Valdimar, Lárus í 12 tónum, sjálfboðaliðinn Graham frá London, Eivör Pálsdóttir, Arnar og Hrafn í hljómsveitinni Warmland, Bagdad Brothers, Árni Matthíasson frá mbl.is, Stafrænn Hákon, Hórmónar, Grísalappalísa, Snorri Helgason ofl.
↧