Þeir falla eins og dægurflugur tónlistarmennirnir um þessar mundir og bara á einni viku hafa þrír merkir tónlistarmenn fallið frá. Florian Schneider úr Kraftwerk, gríðarlega merkilegur og áhrifamikll tónlistarmaður sem þeir félagar Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson fjölluðu um í skemmtilegum Víðsjárþætti á Rás 1 í vikunni. Florian lést reyndar 21. apríl en það var ekki sagt frá því fyrr en í vikunni sem leið. Little Richard sem er einn af stóru frumkvöðlum rokksins lést núna í gær. Hann náði 87 ára aldri. Hann var með krabbamein eins og Florian Schneider. Það verður fjallað um LIttle Richard í Rokklandi eftir viku. En í þættinum í dag ætla ég að fjalla um þriðja manninn sem féll frá í vikunni sem leið. Hann lést 71 árs að aldri síðasta sunnudag, hét Dave Greenfield og hann var hljómborðsleikari The Stranglers. Það verður skautaðyfir feril Stranglers í þættinum í dag. Við heyrum líka í Margréti Eir, en fyrsta platan hennar kom út á Spotify í vikunni, skemmtileg kóverlagaplata sem heitir Meir. Og svo heyrum við líka nokkur lög af annari kóverlagaplötu sem bandaríska tónlistarkonan Joan As Policewoman var að senda frá sér og heitir Cover Two.
↧