Við viljum trúa því að flestir landsmenn kannist við fjöllistamanninn Prins Póló sem hefur skemmt okkur íslendingum um árabil, og skapara hans og besta vin; Svavar Pétur AldísarogEysteinsson Häsler. Hann opnaði nýverið myndlistar og ljósmyndasýningu í Gerðabergi í Brieðholti. Hann er að vinna að músík þessa dagana með einni af uppáhalds hljómsveitunum sínum; Moses Hightower, og hann er með tónleika með Moses í Gamla bíó föstudagskvöldið 22. Júlí. Svo er hann með ólæknandi Krabbamein, en hann er ekki krabbamein segir hann, heldur fyrst og fremst lifandi tónlistarmaður með mörg járn í eldinum. Svavar Pétur; Prins Póló, er gestur Rokklands í dag og við ætlum að ræða allt og ekkert; Bootlegs, SH. Draum, Breiðholtið, áfengi, Bulsur, búskap, hetjur og fyrirmyndir, Sterolab, Rúnk, Jón Kr. Ólafsson, Skakkamanage, krabbamein, Mannakorn, Músíktilraunir, ævintýri, dimma dali, Kidda kanínu, grámyglu, Þjóðhátíð, kaffi og margt fleira.
↧