Ásgeir Trausti kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í íslenskt og reyndar líka alþjóðlegt tónlistarlíf fyrir áratug þegar hann gaf út plötuna Dýrð í dauðaþögn. Platan er ein af fimm mest seldu plötum íslenskrar útgáfusögu. Hinar eru: Gling Gló með Björk og tríói Guðmundar Ingólfssonar (1990), Vísnaplatan Einu sinni var með Gunna Þórðar, Tomma Tomm og Bo Halldorson (1976), Kardimommubærinn (1979) og Dýrin í Hálsaskógi (1967). Í tilefni af 10 ára afmælinu voru tónleikar í Eldborg í Hörpu í gærkvöldi. Það var uppselt og vel heppnað hef ég séð og heyrt í gær og dag. Tónleikarnir voru teknir upp fyrir RÚV - hljóð og mynd. Og það var líka að koma út afmælis&heiðursplata þar sem ýmsir tónlistarmenn og konur flytja nýjar útgáfur af lögunum á plötunni ; K.Óla, BRÍET, Teitur Magnússon, Prins Póló, Árný Margrét, Moses Hightower, GDRN, Hjálmar, Högni Egilsson og Júníus Meyvant. Platan er komin á steymiveitur - en hvað svo? Kemur vinyll? Hvers vegna var þetta gert? Hver átti hugmyndina og hvernig voru listamennirnir valdir? Guðm. Kristinn Jónsson (Kiddi Hjálmur) hægri hönd Ásgeirs allt frá upphafi, tók upp flest lög plötunnar og stýrði verkefninu í Hljóðrita í Hafnarfirði - þar sem hann ræður ríkjum. Kiddi er gestur Rokklands í dag og við ætlum að hlusta saman á plötuna - ég og Kiddi og allir sem vilja.
↧