Þeir Björn Jörundur og Daníel ágúst eru gestir Rokklands og ætla að hlusta á plötuna Himnasendingu með umsjónarmanni. Himnasending er fimmta plata sveitarinnar en áður höfðu komið út: · Ekki er á allt kosið (1989) · Regnbogaland (1990) · Kirsuber (1991) · Deluxe (1991) Hljómsveitin sló í gegn strax með fyrstu plötunni en vegur hennar óx jafnt og þétt með hverri plötu. Þegar komið var að gerð Himnasendingar var ákveðið að fara til Englands og taka hana upp þar og reyna þar fyrir sér í leiðinni, þetta voru ungir menn með stóra drauma. Þeir Björn og Daníel voru rétt rúmlega tvítugir þegar þetta var og búnir að gefa út fjórar stórar plötur og spila um allt land síðan þeir voru 16-17 ára gamlir. Um næstu helgi ætlar Nýdönsk að flytja Himnasendingu, og plötuna sem kom út á eftir henni, Hunang (1993), í heild sinni á tónleikum í Eldborg í Hörpu.
↧