Rokklandið skiptist í tvennt í að þessu sinni. Í fyrri hlutanum er Nick Cave maðurinn og nýja platan frá honum; Skeleton Tree sem kom út á föstudaginn og er sextánda plata hans með Bad Seeds. Í seinni hlutanum ætla ég að skauta yfir rúmlega 20 ára feril hljómsveitarinnar Wilco frá Chicago, en 10unda stóra platan þeirra kom út núna síðasta föstudag. Hún heitir Schmilko og hefur verið að fá fína dóma, eins og reyndar flestar plötur þessarar fínu hljómsveitar. Við heyrum líka stutt viðtöl við annarsvegar gítarleikara sveitarinnar, Nels Cline, og hinsvegar upphaflega trommarann í sveitinni, Ken Koomer. Nels spjallaði ég við þegar hann kom hingað til íslands 2011 á Iceland Airwaves til að spila með Plastic Ono bandi Yoko Ono, og Ken Koomer spjallaði ég við í hljóðveri í Nashville síðasta haust, en hann býr í Nashville og spilar þar með hinum og þessum. Sextánda hljóðverspata Nick Cave og Bad Seeds sem kom út á föstudaginn er gegnsýrð af harmleik sem hefur skekið Cave og fjölskyldu hans undanfarið, en Arthur Cave 15 ára gamall sonur hans hrapaði fram af klettum nálægt heimili fjölskyldunnar í Ovingden Gap í Brighton á Englandi í fyrra eftir að hafa prófað LSD einu sinni. Hann réði ekki við ofskynjanirnar sem fylgdu neyslunni og lífið hreinlega tók enda. Platan Skeleton Tree var eiginlega frumspiluð eða sýnd í hundruðum kvikyndahúsa á fimmtudaginn, þar á meðal í Bíó Paradís í formi kvikmyndarinnar One more with a feeling. Cave hefur lítið sem ekkert tjáð sig um dauða sonar síns við fjölmiðla, en í viðtali við leikstjóra myndarinnar Andrew Dominik á vef Indipendent núna í vikunni segir hann að Cave hafi viljað gera þessa mynd svo hann þyrfti ekki að ræða slysið og sorgina og allt það sem fylgdi við fjölmiðla. Andrew Dominik er gamall vinur Nick Cave, og Cave og Waren Ellis fiðluleikari The Bad Seeds og nánasti samstarfsmaður hans til margra ára sömdu einmitt tónlistina fyrir fyrstu kvikmyndina sem Andrew gerði í Ameríku; The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford. Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona fór í bíó og segir frá myndinni og við heyrum lög af plötunni. Við rifjum líka upp brot úr samtali mínu við Cave frá 2013 þegar hann kom síðast til Íslands til að spila á ATP hátíðinni. Við ræddum þá meðal annars samband hans við almættið.
↧