Elíza Geirsdóttir Newman og vinkonunar hennar frá Keflavík voru 16 ára þegar þær sigruðu í Músíktilraunum árið 1992. Elíza er gestur Rokklands í dag. Hljómsveitin hét Kolrassa Krókríðandi. Kolrassa gaf út þrjár stórar plötur og eftir það var farið í víking og nafninu breytt í Bellatrix. Bellatrix bjó í London í nokkur ár og gekk nokkuð vel um tíma. Sveitin gaf út tvær plötur undir Bellatrix nafninu og spilaði mikið og víða en svo var kominn leiði í mannskapinn og hljómsveitin leystist upp. Elíza var áfram í London og stofnaði nýja hljómsveit og hún segir frá þessu öllu í Rokklandi í dag og við ætlum að ræða Kolrössu og Bellatrix tíman fyrst og fremst. En síðan því ævintýri lauk er hún búin að stofna eina aðra hljómsveit og gera 3 sólóplötur, fara í óperusöngnám og tónlistarkennaranám, eignast sitt fyrsta barn, semja Júróvison-lag og lag um Eyjafjallajökul sem fór um allan heim, og flytja heim til íslands.
↧