Í Rokklandi vikunnar er fjallað um þrjár tónlistarhátíðir sem fara fram á Íslandi núna í júní og júlí; Nigh + Day (Skógafoss 14.-16. júlí), Laugarvatn Music Festival (14.-16. júlí) og Secret Solstice (15.-18. júní) og svo er það Dinosaur Jr. sem kemur til Íslands í fyrsta sinn 22. júlí. Sumarið er dásamlegur tími - fólk fær sumarfrí og fer í ferðalög, hittir vini sína og fjölskyldur sameinast. Eitt af því sem gaman er að gera í smærri eða stærri hópum með vinum sínum og fjölskyldu er að hlusta saman á músík, fara saman á tónleika. Og toppurinn getur verið að fara saman á tónlistarhátið og það er heldur betur munur frá því sem áður var þegar tónlistarhátíðir þekktust ekki á Íslandi - nú eru þær um allt og spretta upp eins og gorkúlur. En hver er ástæðan? Jú hún hlýtur að vera sú að fólk sækir í þetta vegna þess að það er gaman að vera saman að hlusta á músík, að standa með mörgum öðrum og hlusta - það getur myndast ógleymanleg stemning sem maður upplifir ekki á öðrum stundum. Við heyrum í þættinum viðtal við Romy Madley Croft söngkonu og gítarleikara ensku hljómsveitarinnar The XX sem stendur að Night + Day hátíðinni við Skógafoss eftir mánuð og hún segir frá hugmyndinni. Andri Freyr Viðarsson er einn mesti aðdáandi bandarísku rokksveitarinnar Dinosaur Jr. sem spilar í fyrsta sinn á Íslandi 22. júlí. Hann segir okkur frá sveitinni og reynir að útskrýa hvað það er sem gerir þessa sveit merkilega.
↧