Gestur Rokklands að þessu sinni er Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður með meiru. Við ætlum að hlusta saman á plötuna Horft í roðann sem hann gerði 23 ára gamall árið 1976, en Horft i roðann er mikil uppáhalds plata margra og merkileg að mörgu leyti. Þegar Horft í roðann var tekin upp voru fyrstu tvær plötur Stuðmanna komnar út, Sumar á Sýrlandi og Tívolí. Jakob var búinn að vera í talsverðan tíma í Bretlandi og spila með hljómsveit Long John Baldry. Hann gerði samning við Steinar Berg um að hefja plötuútgáfu, en splunkuný útgáfa Steinars (Steinar) gaf út plötur Stuðmanna, Spilverks Þjóðana og sólóplötu Jakobs - Horft í roðann. Platan var tekin upp í Los Angeles, London og í þá nýopnuðum Hljóðrita í Hafnarfirði. Platan fékk góðar viðtölur þegar hún kom út, fékk talsverða spilun í útvarpinu sem þá var eingöngu Rás 1 (Útvarpið). Platan seldist ágætlega og fólk um alt land söng með lögum eins og Sól í dag og Röndótta mær. Horft í roðann er konseptplata og fjallar í raun um líf eftir dauðann. Og á plötunni eru til skiptis lög sem hefðu sómt sér vel á plötum Stuðmanna, og svo Jazz-fusion rokk. Ansi sérstök og kannski sérkennilega blanda sem þó sýnir tvær mest áberandi hliðar Jakobs. Jakob segir frá plötunni og lögunum í Rokklandi vikunnar.
↧