Hljómsveitin Sigur Rós sendir frá sér sjöundu plötu sína í dag. Hún heitir Kveikur og er mál málanna í Rokklandi vikunnar.
Í þættinum kemur hljómsveitin Band Of Horses sem spilaði í Eldborg í Hörpu sl. þriðjudagskvöld aðeins við sögu. Tónleikarnir voru frábærir og voru teknir upp fyrir Rás 2. Á tónleikadag komu þeir í viðtal til Óla Palla þeir Bill bassaleikari og söngvarinn og gítarleikarinn Ben Bridwell. Ben segir í þættinum t.d. frá laginu No one´s gonna love you.
Tónlistin í kvikmyndinni The Great Gatsby sem verið er að sýna í bíóhúsum núna kemur líka við sögu, en þar eru nýjar, en gamaldags útgáfur laga Beyoncé og Roxy Music.
En hljómsveitin Sigur Rós sló í gegn á Íslandi sumarið 1999 þegar platan Ágætis Byrjun kom út. Með hverju árinu sem hefur liðið síðan þá hefur vegur Sigur Rósar vaxið og í dag er Sigur Rós eitt magnaðasta tónleikaband heimsins. Heimsþekkt hljómsveit sem er meira að segja búið að gera ódauðlega í Simpsons þætti.
Núna í dag (17. Júní) kemur út ný plata með Sigur Rós, sjöunda stóra platan, og þar kveður við nýjan tón. Á burt er strengja-dramatíkin sem hefur hálfpartinn einkennt tónlist Sigur Rósar frá Ágætis Byrjun, og nú stígur Sigur Rós (sem er tríó síðan í fyrra eftir að Kjartan Sveinsson hljómborðs og gítarleikari hætti) fram með talsvert þyngri músík og öðruvísi en maður hefur átt að venjast frá hljómsveitinni.
Þeir Goggi bassaleikari og Orri trommari eru gestir Rokklands að þessu sinni og fara yfir plötuna lag fyrir lag.
↧