Í gær var frumsýnd í Bíó paradís kvikmyndin Biophilia Live sem sýnir Björk á sviði með sínu fólki á lokatónleikum Biophilia tónleikaferðarinnar í Alexandra Palace í London í fyrra.
Ólafur Páll Gunnarsson var viðstaddur sýninguna í gær og segir að myndin sé frábær og einstaklega sönn. Hún sýni Björk og hennar fólk í réttu ljósi á þessum lokatónleikum túrsins og það góða við myndina sé að engu sé breytt eftirá. Það er ekkert tekið aftur, Björk syngur ekkert aftur og myndin sýnir sanna mynd af Biophiliu á sviði. Myndin er svo listina skreytt með lifandi myndum úr náttúrunni og úr Biophilia appinu sem kom út samhliða plötunni (tónlistinni).
Óli Palli ræddi við Björk í Iðnó í gærdag (05.09.2014) um Biophiliu, tónleikaferðina og framtíðina og það er uppistaðan í Rokklandi vikunnar.
Biophilia er margmiðlunarverk búið til úr tónleikum og “Öppum? (snerti-virkni-smáforritum), sérsmíðuðum hljóðfærum, hljómplötu og kennslu.
Björk starfaði með forriturum, vísindamönnum, rithöfundum, uppfinningamönnum, tónlistarmönnum og hljóðfærasmiðum í margmiðlunarkönnun sinni á alheimslögmálum og þeim náttúrukröftum sem tengja saman tónlist, náttúru og tækni. Biophilia er innblásið af þessum tengslum og er rannsókn á því hvernig þau birtast í tónsmíðum og náttúrufyrirbrigðum bæði í minnstu frumeindum og á alheimsvísu.
↧