Bubbi Morthens segir frá plötunni Dögun í Rokklandi dagsins og lífi sínu á þeim tíma þegar platan varð til og kom út. Dögun kom út 19. Nóvember árið 1987, fékk yfirleitt góða dóma en einhverjir gagnrýnendur settu reyndar út á hvað hún hljómaði OF vel, hvað hún var fáguð. Dögun seldist gríðarlega vel og er ein mest selda ef ekki bara mest selda platan hans Bubba, hún seldist í yfir 20.000 eintökum. Upptökustjóri plötunnar var Tómas M. Tómasson Stuðmaður en hann og Bubbi hafa ekki gert plötu saman síðan. Plötuna á undan, Frelsi til sölu gerði Bubbi með svíanum Christian Falk úr hljómsveitinni Imperiet sem nú er látinn. Dögun er áttunda sólóplatan hans Bubba og þegar hún kom út voru liðin sjö ár frá því Ísbjarnarblús kom út (fyrsta platan) og á þessum sjö árum var hann líka búinn að vera í Utangarðsmönnum og Egó, Das Kapital og MX21 og gefa út plötur með öllum þessum sveitum. Þar af fjórar með Utangarðsmönnum ef allt er talið og þrjár breiðskífur með Egó. Stjarna Bubba skein skært á þessum tíma, hann var kóngurinn í íslenskri músík, dýrkaður og dáður af æsku landsins og fjölmiðlar fylgdust með hverju spori - blöðin veltu sér t.d. upp úr því hvort söngvarinn væri streit eins og hann sagðist vera, eða hvort hann væri kannski bara fallinn. Bubbi segir frá í þættinum og í lokin verður lag af væntanlegri plötu frumflutt. Platan hefur fengið nafnið Tungumál og kemur út 6. júní nk.
↧