Þeir Gunnlaugur Briem trommari, hljómborðsleikarinn Eyþór Gunnarsson, bassaleikarinn Jóhann Ásmundsson og gítarleikarinn Friðrik Karlsson voru kornungir þegar þeir byrjuðu að spila saman árið 1977. Fljótlega fæddist Mezzoforte sem er fyrsta íslenska hljómsveitin sem vakti athygli útfyrir landsteinana, fyrsta íslenska hljómsveitin sem náði lagi inn á topp 20 á breska vinsældalistanum, kom lagi í spilun á BBC Radio one og spilaði í Top of The Pops. Mezzoforte er líka fyrsta íslenska hljómsveitin sem túraði skipulega um heiminn með smell í vasanum, lagið Garden party. Menn fylltust von þegar velgengnin bankaði á dyrnar og hljómsveitin flutti ásamt konum og börnum til Englands þar sem járnið var hamrað meðan það var heitt. Það var útgefandinn Steinar Berg Ísleifsson sem hvatti strákana til dáða og var eins í raun eins og hluti af hljómsveitinni. Það reyndist þrautin þyngri að fylgja velgengni Garden party eftir og eftir tveggja ára dvöl í Englandi komu strákarnir og fjölskyldur þeirra aftur heim til Íslands vonsviknir og sum um fannst þeim hafa mistekist. En þeir komu sér aftur inn í íslenska músíkbransann, spiluðu með hinum og þessum en héldu áfram með Mezzoforte. Og ennþá er Mezzoforte starfandi, sömu fjórir strákarnir og enn eru þeir að gefa út plötur og túra um heiminn. En hvað heldur þeim saman? Hvað er svona sérstakt við þessa hljómsveit og eru þeir ennþá allir vinir. Við fáum vonandi svör við þessum spurningum og fleirum í Jazz-Rokklandi dagsins en þeir Eyþór og Gulli segja frá. Mezzoforte fagnar 40 ára afmælinu með tvennum tónleikum í Háskólabíó um næstu helgi, laugardag og sunnudag, 16. Og 17. September.
↧