Burt Bacharach verður á línunni í Rokklandi í dag, en hann var að borða morgunmat þegar ég sló á þráðinn til hans um daginn. En þessi 88 ára gamli meistari heldur tónleika í fyrsta og eina skiptið á íslandi, í Eldborg í Hörpu 12. Júlí nk. Burt á ótrúlegan feril að baki og hefur átt fleiri lög en flestir á vinsældalistunum stóru í Ameríku og Bretlandi undanfarin 50 ár og rúmlega það. Það hafa allir sungið lögin hans; White Stripes, Rod Stewart, Hollies, Stranglers, Rumer, Manic Street Preachers, Michael Jakcson, Elton John, Elvis Costello, Elvis Presley, Paul Weller, Dusty Springfield, Neil Diamond, Diana Ross, Aretha Franklin, Cilla Black, Bítlarnir, Carpenters, Páll Óskar og síðast en ekki síst- Dionne Warwick.. og svo margir margir fleiri. Afrekaskráin er gríðarlöng, ? hann hefur átt 73 lög á topp 40 í Ameríku og 52 í Bretlandi. Hann hefur unnið til 6 Grammy verðlauna og tvennra Óskarsverðlauna. En fyrst og fremst eru það lögin hans sem skipta máli, þessi flottu popp og dægurlög. þetta eru lög sem næstum allir þekkja mjög vel. Þau eru úti um allt og lögin hans Burt eru málið í Rokklandi dagsins. Ég ætla að spila lögin hans í dag og svo heyrum við aðeins í honum sjálfum gegnum símann frá Los Angeles þar sem hann býr.
↧